148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[19:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað. Það væri æskilegt ef hæstv. fjármálaráðherra væri við þessa umræðu til þess að svara og koma inn í umræðuna sem þingmenn eru að leggja sig fram um að hafa málefnalega. Ég kannast við það sem fyrrverandi ráðherra að hafa verið ótt og títt kallaður inn og reyndi að bregðast við því, iðulega.

Mig langar hins vegar að spyrja hvort eitthvað sé að frétta af ósk þingflokksformanna frá því í gær um að flýtt yrði fjármálaáætluninni. Hæstv. forseti ætlaði að hafa samband við fjármálaráðuneytið varðandi það. En það er spurning hvort maður eigi ekki að vera svolítið sanngjarn og segja sem svo að ef hæstv. fjármálaráðherra er að vinna að fjármálaáætluninni þá viljum við kannski bara ekkert sjá hann, viljum kannski frekar að hann sé að dúlla sér við það. Þá legg ég til að fjármálaráðherra setji á Facebook mynd af sér við að vinna í fjármálaáætluninni, þá getum við öll farið í matarhlé og haft það náðugt þangað til.