148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi kjarasamninga, ég vil nú fyrst þakka aðilum vinnumarkaðarins fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun en ekki hæstv. fjármálaráðherra fyrir þann frið sem þar náðist. En auðvitað er friður á vinnumarkaði mjög mikilvægur. Ég tek alveg undir það.

Hér var minnst aðeins á Seðlabankann. Það var ein umsögn sem ég minntist ekki á í yfirferð minni. Í umsögn Seðlabankans um þessa fjármálastefnu er einmitt varað við því aðhaldsleysi sem birtist í stefnunni.

Varðandi tekjuleiðir. Það kom mjög skýrt fram í málflutningi Samfylkingarinnar hvar við viljum sjá tekjurnar til að fjármagna sjúkrahúsin, barnabætur, vaxtabæturnar. Við viljum auka auðlindagjöld. Við viljum skoða breyttan fjármagnstekjuskatt. Við viljum setja tekjutengdan auðlegðarskatt og við viljum tryggja frekari tekjur af erlendum ferðamönnum.

Það er ekki hægt að segja með sanngirni að við séum að skila auðu þegar kemur að hugmyndum um að styrkja tekjugrunn ríkisins. Það er einmitt það sem nánast hver einasti hagsmunaaðili er að kalla eftir: Styrkið tekjugrunn ríkisins. Hættið að trúa þessari bullmöntru um að það eigi alltaf að lækka skatta hvernig sem uppsveiflan er. Því að það er röng aðferð og röng hagfræði. Við í samfélaginu, þjóðin, þurfum að súpa seyðið af þessu. Slæm hagstjórn í dag (Forseti hringir.) þýðir að við munum súpa seyðið af þessu í framtíðinni.