148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:28]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við erum ekki í neinum stöðugleika núna. Ég held að það sé alveg ljóst. Sennilega komumst við hvað næst því í fastgengisstefnu tíunda áratugarins þar sem við upplifðum sæmilegan stöðugleika framan af en misstum síðan tökin á ríkisfjármálunum og vinnumarkaðnum líkt og svo oft áður. Á endanum sprakk sú peningastefna í andlitið á okkur.

Staðreyndin er auðvitað sú að við erum útgildi í öllum vestrænum samfélögum þegar kemur að hagvexti, í fráviki hagvaxtar, ekki hversu mikið við vöxum, og við erum útgildi í verðbólgu. Við stærum okkur gjarnan af því hvað við séum sveigjanleg og hvað við vöxum hratt. Ef við yxum alltaf svona hratt til lengri tíma litið værum við væntanlega ein ríkasta þjóð heims. En við erum rík á tíu ára fresti og við erum fátæk á tíu ára fresti. Það er auðvitað vandinn, það er þessi óstöðugleiki. Jú, við sprettum upp úr kreppu en við erum slegin jafnharðan til baka því að við lærum aldrei af fyrri reynslu. Ég kenni óstöðugum og örsmáum gjaldmiðli einna helst þar um.