149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[19:32]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, þessi ógn er sannarlega til staðar, hún er mörgum framandi. Í markmiðskaflanum er m.a. fjallað um það að efla vitundarvakningu þannig að menn átti sig á hvaða ógnir séu þarna úti á þessum nýja — nýja segi ég, þótt við séum búin að hafa hann í þó nokkuð mörg ár, þá eru alltaf einhvern veginn að opnast nýjar leiðir fyrir þá sem vilja nota hann í misjöfnum tilgangi.

Lykilatriði, eins og hv. þingmaður kom inn á, er samstarf við aðrar þjóðir. Við eigum gríðargott samstarf við Norðurlöndin. Við erum í NATO og það hjálpar okkur líka hvað þetta varðar, en við þurfum að gera meira. Þess vegna fengum við á sínum tíma Oxford, ef ég man rétt, til að gera úttekt sambærilega og þeir gera í öðrum löndum. Þeir hafa gert skýrslur og komið hingað til lands og tekið viðtöl við fjölda aðila til að greina stöðuna. Hún var grundvöllur þess að hægt var að átta sig á því hvar við værum stödd og hverju þyrfti að bæta við og er síðan grundvöllur eins af því sem kemur fram í NIS-frumvarpinu okkar um öryggismál, hvaða leiðir við þurfum að fara, og hefur reyndar hjálpað okkur líka og mun hjálpa okkur áfram í ýmsum hliðarákvörðunum og uppsetningu á verkefnum sem við þurfum að gera.

Eitt af því sem er þar til viðbótar er að við þurfum einfaldlega meiri þekkingu inn í landið, og þess vegna hafa menn verið í samstarfi við norska háskóla. Hingað hafa komið sérfræðingar frá Oxford til að kenna. Þau námskeið hafa fyllst. Sá aðili hefur haft áhuga á að koma hingað til lands og þar eiga bæði háskólanemar, sérfræðingar í háskólanum og sérfræðingar úti í samfélaginu möguleika á að öðlast þessa þekkingu. Nemendur sem opna kannski augu sín fyrir því að þarna er spennandi svið sem við þurfum meiri þekkingu á leita sér (Forseti hringir.) kannski þekkingar til erlendra skóla og halda uppi þessu tengslaneti, því að það er lykilatriðið í þessu, eins og mörgu öðru, samvinna, samvinna, samvinna.