149. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2018.

áætlun fyrir árin 2019--2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

409. mál
[20:24]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Þingforseti. Ég vil að leggja áherslu á að það vantar inn í þingsályktunartillöguna aðgerðir sem snúa að fræðslu til foreldra, til að efla foreldra í uppeldishlutverkinu. Sú aðgerð er m.a. orðuð í lýðheilsustefnu sem ég nefndi áðan og á sér rætur í ráðherranefnd um lýðheilsu, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson setti á fót þegar hann var forsætisráðherra.

Það er það sem ég vil undirstrika, að þá mikilvægu aðgerð vantar. Mér finnst hún vera grunnur allra aðgerða, að aðstoða foreldra í uppeldishlutverkinu, vegna þess að þar náum við árangri. Menn hafa lengi talað um að ábyrgð sé ýtt yfir á skólakerfið í of ríkum mæli og ég get alveg tekið undir það. Kennarar eru ekki bara að kenna námsgreinarnar heldur eru þeir að ala börnin okkar upp líka. Vissulega þurfa þeir á ákveðinn hátt að gera það en foreldrar eiga að sjálfsögðu að sjá um að ala upp börnin sín. Það er erfitt hlutverk og þess vegna finnst mér að stjórnvöld þurfi að koma því svo fyrir að foreldrum verði gert auðveldara að komast á skrið í mikilvægasta hlutverkinu sem við sinnum á lífsleiðinni, vil ég segja.