153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hækkun gjalda.

[15:05]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mikið talað um aðhald vegna verðbólgu þessa dagana og rétt er að það þarf að huga að því. Það er verið að hækka skatta í þessari ríkisstjórn og verið er að hækka gjöld í hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, en það er allt á einn veg. Það er allt sett á almenning og smærri fyrirtæki. Þegar á reynir kemur í ljós fyrir hverja er stjórnað, á verðbólgutímum þegar ráðist er í aðhald þá kemur í ljós fyrir hverja er verið að stjórna í raun og veru. Fyrir hverja stjórnar hæstv. ríkisstjórn?

Skoðum bara hvar aðhaldið lendir. Eftir metár í fjármagnstekjum, eftir metarðsemi í sjávarútvegi og methagnað hjá bönkunum, er allt aðhaldið tekið út með því að skrúfa upp skatta og hækka gjöld á almenning; ekki á fjármagnið, ekki á stórútgerðina og ekki á bankana. Allt aðhaldið er tekið út á almenningi hjá þessari ríkisstjórn. Krónutölugjöldin eru ekki einu sinni flatur skattur í þeirri merkingu að hann leggist hlutfallslega jafn þungt á alla eða flatt á alla þessa hópa. Nei, þessi gjöld eru beinlínis stiglækkandi skattur. Þetta er regressífur skattur sem leggst hlutfallslega þyngra á fólk eftir því sem það hefur lægri tekjur.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki náttúrulögmál. Þetta er pólitík þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr undir forystu Katrínar Jakobsdóttur og það blasir við að þau stjórna í þágu fárra, ekki almennings. Þetta sést best þegar á reynir því að þá leita þau beint í vasa almennings í stað þess að grípa til aðhalds þar sem svigrúmið er til staðar, þar sem þenslan er raunveruleg.

Ég spyr því hæstv. forsætisráðherra: Hvers vegna er þetta sú leið á tekjuhlið ríkissjóðs, af öllum mögulegum leiðum, sem hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur velur til að ná fram aðhaldi í ríkisfjármálum?