153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hækkun gjalda.

[15:10]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki skilið betur þetta svar hæstv. forsætisráðherra en að hún telji að þennan lúxus sem hér er um að ræða, tóbak og áfengi — sem eru ekki einu gjöldin sem verið er að hækka — þurfi að taka sérstaklega fyrir, frekar en lúxusinn sem nú má sjá í sjávarútvegi, hjá bönkunum og fjármagnseigendum. Auðvitað snýst þetta um forgangsröðun. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki enn svarað spurningu minni: Af hverju er ákveðið að forgangsraða með þessum hætti?

Þetta snýst um hreina forgangsröðun og við í Samfylkingunni ætlum til að mynda að leggja fram breytingartillögur við þessi fjárlög til að verja heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu í þeirra mánaðarlegum útgjöldum, sem við ætlum nú ekki að stýra sérstaklega, sem snýr að því að aðhaldið verði tekið út með hóflegri hækkun á fjármagnstekjuskatti frekar en þessum krónutölugjöldum. Mig langar aftur að beina þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra: Er eitthvað því til fyrirstöðu að hún styðji þessa breytingartillögu og finnst henni eðlilegt að taka þetta út með flötum gjöldum frekar en að ráðast til að mynda á þensluna þar sem hún er hvað mest?