153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[15:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að það mikilvægasta sem við gerum núna sé að koma í veg fyrir að tvöfalt heilbrigðiskerfi haldi áfram að byggjast hér upp þar sem sárþjáð fólk, sem oftast hefur ekki efni á því að vera utan vinnu, er að kaupa sér aðgerðir af einkaframtakinu; neyðist til þess að kaupa sig fram fyrir á listanum af því að það hefur ekki heilsu eða fjárhagslega burði til að bíða. Ég tel því mjög mikilvægt að þetta gerist hratt. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að þessar 750 millj. kr., og þeir aðrir fjármunir sem sparast við að færri fari utan, dugi til þess að ná þessum biðlistum hratt niður og koma í veg fyrir tvöfalt kerfi og hvort í undirbúningi séu svipaðir samningar og við einkaframtakið í endómetríósunni.