Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:18]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er útlistað nákvæmlega hvað er í þessum samningum og er þar m.a. að finna tilfærslur veiðiheimilda, aðgang fiskiskipa og samkomulag um reglufylgni, eftirlit og framfylgd og svo eitthvað um fyrirkomulag leyfisveitinga. Því hefði ég haldið að stærsta efnislega atriðið væri kannski hversu mikið af veiðiheimildum fellur til hvers lands hverju sinni. Þá spyr ég mig hvort verulegar breytingar á því myndu ekki kallast efnisbreytingar vegna þess að þetta er ákvarðað á hverju ári. Ég er í raun bara að velta því upp, t.d. ef við myndum ákveða að núlla út þennan samning eða skilja bara eftir 5.000 tonn eða eitthvað þannig, hvort það myndi teljast veruleg efnisleg breyting eða ekki.

Vegna þess að það er nefnt sem fordæmi fyrir þessum rammasamningi þá stendur, með leyfi forseta, í greinargerð að rammasamkomulag sambærilegt þessu „hefur um tíma verið við lýði í samskiptum Íslands og Rússlands, sbr. tvíhliða bókun Íslands og Rússlands við þríhliða samning Íslands, Rússlands og Noregs um veiðar í Smugunni frá 15. maí 1999.“ Ef ég skil þessa greinargerð rétt og þær upplýsingar sem ég aflaði mér í kjölfarið eftir að hafa lesið hana, þá er þessi rammasamningur við Rússland enn þá í gildi. Því velti ég fyrir mér hvort það hafi komið til umræðu að segja upp þessum rammasamningi við Rússa eftir innrás þeirra í Úkraínu.