Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur: Við erum hér að tala um það að þjóðirnar hafa náð með sér samkomulagi um það með hvaða hætti þær hyggist í framtíðinni ná niðurstöðu á hverju ári t.d. um þessar gagnkvæmu veiðiheimildir. Það er þessi rammi sem þingsályktunartillagan fjallar um. Til þess að við getum staðfest endanlega og bundið lögformlega um það nýja samkomulag sem felst í þessu rammasamkomulagi þá erum við með þessa tillögu hér og ætlum að láta hana síðan ganga til samþykktar forseta í framhaldinu. Allt sem samið verður um á grundvelli rammasamningsins er vel innan þess sem tíðkast við gerð samninga við önnur ríki og það heyrir frekar til undantekninga að slík atriði komi til umfjöllunar hér í þinginu, þau eru einfaldlega birt, og mun fyrst reyna á aðkomu þingsins ef það á að fara að gera einhverjar meiri háttar breytingar, eins og við höfum aðeins verið að ræða um á þjóðréttarsamningum. Samningar við allar aðrar þjóðir sem við skiptum á veiðiheimildum við eða aðgengi að lögsögu fara eftir rammasamningum. Ég get bara fullyrt að það er ekki ástæða til þess að vera áfram í því ferli sem við höfum verið í, í þessum bréfaskiptasamningum, heldur er það miklu heilbrigðara og nær almennri framkvæmd þessara mála að loksins hafi tekist að gera rammasamkomulag við Færeyinga um þessi mál.