Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:59]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Í mínum huga er þetta nú orðhengilsháttur að vera að tala um að hér sé verið að tefja innleiðingu þegar augljóslega er verið að framlengja bráðabirgðaákvæði. Ég sagði það skýrt hér áðan að þetta snerist ekki eingöngu um að uppfylla 172 samninga sem hér eru m.a. til umræðu, heldur líka að klára samstarf ríkis og sveitarfélaga, að halda áfram samstarfi ríkis og sveitarfélaga um innleiðinguna á NPA-þjónustunni. Það er lykilatriði í þessu líka. Í skýrslu starfshópsins sem Haraldur Líndal stýrði eru einhverjar 10 eða 20, mig minnir að það séu 24 tillögur sem snúa akkúrat að innleiðingu á NPA-samningunum, álitaefnum sem þar eru uppi. Við erum m.a. að framlengja þetta bráðabirgðaákvæði til þess að halda því samstarfi áfram samkvæmt lögunum. Er það að tefja innleiðingu? Nei, það er ekki að tefja innleiðingu, hv. þingmaður, bara alls ekki. Ég vil bara leggja áherslu á það að ríkisstjórnin hefur sett meira fjármagn en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun á sínum tíma til þessa málaflokks vegna þess að samningarnir voru dýrari, en vissulega ekki nægjanlega mikið til að ná þessum 172 samningum. Þess vegna er hérna komið plan um það hvernig við ætlum að gera það og búið að tryggja fjármagn til þess á næsta ári, 375 milljónir, sem hv. þingmenn geta lesið um í tillögum fjárlaganefndar, og ættu að tryggja vonandi um 50 samninga. Það fer vissulega eftir því hvað hver samningur kostar, hversu mikil þjónustuþörfin er, hversu þjónustuþungur hver og einn samningur er. En á þessum áætlunum byggir það mat okkar að 375 milljónir á næsta ári muni duga fyrir um 50 samningum.