Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[22:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Já, varðandi meintan orðhengilshátt þá hefði kannski verið réttara að segja að ríkisstjórnin hafi verið að tefja innleiðinguna frá upphafi vegna þess að sá fjöldi samninga sem er í gildi í dag er á svipuðum slóðum og hefði átt að vera á árunum 2018–2019, sem sagt á fyrstu tveimur árum innleiðingarinnar. Og núna loksins, þremur vikum áður en innleiðingin átti að vera búin samkvæmt lögunum, þá á að framlengja hana eða tefja lok innleiðingar um tvö ár í viðbót. Hæstv. ráðherra benti á að fjármagn væri tryggt til að uppfylla einhvern fjölda samninga í meðalþyngd en hann passaði sig á að vera með belti og axlabönd þegar kemur að því að ætla ekki að uppfylla þessi sjálfsögðu mannréttindi gagnvart 50 einstaklingum ef allt í einu detta inn einhverjir einstaklingar sem kostar meira að sinna. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann fullvissu fyrir því frá fjármálaráðherra að það verði fyllt upp í fjárveitingar til samninganna þannig að það náist þessir 50 á næsta ári og síðan það sem þarf til að fara upp í 174 á þar næsta ári?

Svo kannski bónusspurningin: Finnst ráðherranum í alvöru ásættanlegt að skilyrða mannréttindi við fjárveitingar?