131. löggjafarþing — 41. fundur,  29. nóv. 2004.

Stuðningur við stríðið í Írak.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er spurning hvort sómi Alþingis er fólginn í því að ræða þetta alvarlega mál á þeim nótum sem hér er gert og með myndlíkingum af því tagi sem notaðar eru.

Það sem þetta mál snýst um er auðvitað tvíþætt, annars vegar atburðirnir í mars 2003, hvernig það gerðist að Ísland birtist á lista hinna vígfúsu þjóða, að fá það rannsakað og upplýst hvernig sú ákvörðun var tekin, af hverjum og hvers vegna lögboðið samráð við utanríkismálanefnd Alþingis var ekki virt. Fyrir því höfum við barist, stjórnarandstæðingar, það mál hefur verið á dagskrá í utanríkismálanefnd frá því í haust og þar er núna til umfjöllunar tillaga um að þessir hlutir verði upplýstir.

Hinn þáttur málsins snýr að því sem áfram er að gerast í Írak. Það er útbreidd skoðun meðal heimsbyggðarinnar að þar fari nú fram hreinir stríðsglæpir, t.d. það sem gerðist í borginni Falluja. Lögfræðingar, bæði austan hafs og vestan, velta fyrir sér hvort möguleiki verði á því að fá bandaríska ráðamenn kyrrsetta, tekna höndum, ef þeir ferðast til Kanada eða Evrópu og láta þá svara til saka gagnvart ákærum um stríðsglæpi. Þetta er málið en ekki fliss og fíflalæti af því tagi sem við urðum vitni að hér áðan.

Það að Ísland skuli hafa verið dregið inn í það að styðja ólögmætt árásarstríð og bera síðan jafnvel með áframhaldandi stuðningi sínum við þessar aðgerðir samábyrgð á stríðglæpum er ekki mál sem ég hef geð í mér til að hlæja yfir hér í þingsal, herra forseti.

Auðvitað væri það fagnaðarefni ef stjórnarsinnar væru að byrja að sjá að sér í þessu máli, eins og kannski mátti ætla af hv. þm. Hjálmari Árnasyni í nefndum sjónvarpsþætti hafi hann verið með fullri meðvitund sem við hljótum að gera ráð fyrir. Það kemur samt fyrir lítið á meðan höfuðpaurarnir tveir sem einir hafa borið ábyrgð á þessu allan tímann, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, sjá ekki að sér.