141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að tala um kynbundinn launamun eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og ítreka að nú er tækifæri hjá ríkisstjórninni til að gera myndarlega gangskör í að leiðrétta laun stórs hóps sem er að langstærstu leyti konur — ég held að karlar séu 1% eða 2% hjúkrunarfræðinga hér á landi — að setja í gang endurmat á stofnanasamningum. Launaflokkarnir eru 18, eins og fram hefur komið, en hjúkrunarfræðingar raðast hæst í 7. flokk þannig að það eru 11 launaflokkar eftir. Það er merkilegt að við metum þessi störf ekki hærra en svo þegar gerðir eru stofnanasamningar. Kannski skýrir það að einhverju leyti þann óútskýrða, kynbundna launamun sem menn hafa talað um á liðnum vikum og mánuðum og reyndar í allt of mörg ár.

Hér er klárlega tækifæri fyrir ríkisstjórnina til að sýna frumkvæði í verki en setja málið ekki bara í nefnd rétt fyrir kosningar og tala um að nú eigi að fara að gera eitthvað í lok kjörtímabilsins, heldur að gera alvörugangskör í því að reyna að leiðrétta þennan ósanngjarna og óskiljanlega kynbundna launamun. Það er ótrúlegt að á árinu 2012 skuli menn ekki enn vera búnir að átta sig á því að sambærileg störf eiga að fá sambærilegar greiðslur óháð því hvort um er að ræða karlastörf eða kvennastörf. Ég vil því hvetja ríkisstjórnina til að gera betur og ekki síst hæstv. forsætisráðherra sem hefur oft og tíðum talað nokkuð digurbarkalega um þessi mál án þess að nokkuð hafi skilað sér í þeim efnum.