143. löggjafarþing — 41. fundur,  18. des. 2013.

fjáraukalög 2013.

199. mál
[21:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þau gögn sem við höfðum las ég. Þess vegna, eins og kemur fram í áliti minni hlutans og ég sagði í ræðu minni, er það spurning hvort lægra sett stjórnvald hefur heimild til að skuldbinda aðra aðila, samanber Íbúðalánasjóð.

Það liggur ekkert fyrir af hálfu Íbúðalánasjóðs varðandi þessi mál. Ekki liggur fyrir úr ráðuneytinu formlegt mat á þessu. Ódagsett og óundirritað minnisblað kom úr innanríkisráðuneytinu að mér er sagt, hvorki með dagsetningu né undirritað — mér fannst það vanta, og eins frá fjármálaráðuneytinu. Þannig að ég held að ég hafi ekki verið að fullyrða neitt sem ég ekki get staðið hér við. Það eru sveitarfélög sem eru í vandræðum vegna félagslegra íbúða sem gætu átt eftir að lenda í sambærilegri stöðu og Bolungarvíkurkaupstaður. Þess vegna tel ég að þetta sé eitthvað sem við þurfum að fara betur ofan í og ég tel að við ættum að geyma þetta fram yfir næsta ár eins og fram kemur í áliti okkar.