144. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2014.

störf þingsins.

[11:11]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Stundum þegar ég les opinber gögn rekur mig í rogastans yfir þeirri virðingu sem einstaklingurinn nýtur, eða við skulum segja virðingarleysi. Hér er ég með plagg sem heitir Tíund, ágætisblað. Bakhliðin er ýmsir stuðlar til skatta, m.a. kemur fram að einstaklingur nýtur 400 þús. kr. vaxtabóta, en þegar einstaklingurinn gengur í hjónaband þá missir hann 33% af réttindum, sambúðarfólk er einungis með 600 þúsund.

Sömuleiðis eru hér ýmsar tölur varðandi barnabætur, sem eru ekki byggðar á fjölda einstaklinga. Ég verð að segja eins og er að ég hef alltaf litið á einstaklinginn sem einan, og það er nú gjarnan þannig í þessum opinberu tölum að talan 2 gengur aftur upp, yfirleitt sem deiling. Stundum er talan 10 eða tíund úr einum brúkuð þannig að það verða 10% og þá virðist mér menn vitna til lögarðs á þjóðveldisöld.

Síðan gekk nú alveg yfir mig þegar sérstakur viðbótarlífeyrissparnaður var til frádráttar hjá einstaklingi upp á 500 þús. kr., 750 þús. kr. á hjón. Ég held að þingið ætti kannski að fara að virða einstaklinginn að fullu og jafnvel að nota virðulegri tölur en 2 eða 0,5, það er það eina sem þingið ræður við, og nota t.d. tölu eins og 1,61 eða 2,71 eða 3,14. Þetta eru þó virðulegar tölur sem hafa ýmsa mjög merkilega eiginleika.

Ég vildi aðeins vekja athygli þingsins á þessu. Einstaklingurinn er einstaklingur og hann á að vera það í gegnum alla löggjöf.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.