148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:29]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin er kannski: Af hverju er ríkisvaldið að setja reglur um hvar fólk er með lögheimili? Skýra svarið er það að þessari almannaskráningu var á sínum tíma komið á fót til að sinna brýnum þörfum stjórnvalda til að samræma skráningu landsmanna. Það er hins vegar ekki þannig að ríkisvaldið sé að hlutast til um hvar fólk eigi heima heldur miðast reglurnar fyrst og fremst við að tryggja yfirsýn ríkisins, að hægt sé að koma upplýsingum til fólks og hægt að reka samfélag.

Varðandi það að hverjum og einum sé ekki mögulegt að dylja heimilisfang eða lögheimili sitt er slíkt einmitt gert í þeim tilgangi sem greinargerðin sýnir. Þá er verið að dylja það fyrir fjölmörgum stofnunum sem þarf að leita til. Þetta er undantekning. Grundvallarkerfið snýst um að menn séu skráðir á lögheimili þannig að yfirsýn ríkisvaldsins, samfélagsins, sé fyrir hendi. Í einhverjum tilvikum getur verið nauðsynlegt að fólk geti horfið og (Forseti hringir.) þá er það gert með þessum hætti, m.a. dulið fyrir öðrum stofnunum ríkisins.