148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:01]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög greinargott svar. Mig langar að leggja út af því og einnig út af ræðu hv. þingmanns hér fyrr varðandi persónuupplýsingarnar og skortinn á skilningi stjórnvalda sem hann kom inn á, sem gæti orðið svo hættulegur varðandi lagasetningu um þessi mál.

Við erum stundum svolítið aftarlega á merinni þegar kemur að þessum málum sem varða persónuvernd, tæknimál í grunninn. Það hefur ítrekað komið upp í þingsal hv. Alþingis að hv. þingmenn Pírata og fleiri hafa gripið inn í mál vegna nokkuð sérhæfðrar þekkingar á því sviði, sem er algerlega frábært og mjög mikilvægt fyrir þingið.

En ég velti fyrir mér: Telur hv. þingmaður að við þurfum að tryggja betri þekkingu á fyrri stigum, þ.e. inni í ráðuneytunum eða a.m.k. kosti inni í Stjórnarráðinu á þessum tæknilegu hliðum málsins? Hvernig getum við aukið skilning stjórnvalda þannig að framkvæmdarvaldið sé meira með á nótunum hvað varðar þessi mál?