148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjarskipti.

390. mál
[17:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó aðeins eftir því í orðum hv. þingmanns að við þyrftum ekki Evrópusambandið til þess að fara í uppbyggingu eins og varðandi símann og netið, sem við höfum greinilega gert mjög vel, af orðum hv. þingmanns að dæma.

Fyrir þinginu liggur önnur tillaga sem er mjög svipuð. Það er skyldleiki þarna á milli þar sem nethlutleysi, sem við ræðum hérna, og reikið, það vandamál sem við erum með á reikinu hérna, sem er komið í lag í Evrópu, tengist á svipaðan hátt þróun netsins hvað varðar höfundaréttinn. Nú erum við með í umsögnum takmarkanir á höfundarétti sem leyfa tölvum að lesa í gegnum heilan helling af t.d. vísindagögnum o.s.frv. til að búa til ákveðnar tölulegar upplýsingar og tölfræðileg gögn og því um líkt.

Mig langar til þess að setja samasemmerki á milli þessarar umræðu og þeirrar umræðu. Í báðum tilvikum er um að ræða ákveðna tæknilega framþróun sem er að mínu mati óhjákvæmileg. Og við getum gert mistök. Við gerðum greinilega mistök varðandi reiki og við getum gert mistök með því að stíga skrefið ekki til fulls í höfundaréttarmálinu sem liggur fyrir þinginu.

Við fáum þá löggjöf frá Evrópusambandinu. Við fáum líka ákveðna löggjöf frá Evrópusambandinu varðandi takmörkun á höfundaréttinum hvað varðar sjálfvirka gagnaöflun. Það eru mistök eins og reikismálin eru á Íslandi. Við höfum tækifæri til þess að gera betur.

Ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn sjái svipað samasemmerki og ég í þessum tveimur málum.