148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni hans spurningu og hug hans til þess að efla þingið. Svo sannarlega viljum við efla þingið og ráð og tæki og tól til þess að framkvæma allt sem hér um getur en nefndin eyddi dágóðum tíma í að fara yfir mjög vandaðar umsagnir og kallaði eftir minnisblaði frá ráðuneyti, sem gjarnan er gert í nefndum, til að bregðast við þeim gagnlegu ábendingum sem bárust, m.a. frá fjármálaráði og frá fjöldamörgum umsagnaraðilum, til þess að bæta úr því sem bent var á. Það er vinnulag sem viðgengst í nefndum. Við erum hér að fjalla um stefnu hæstv. ríkisstjórnar.