148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

almenn hegningarlög.

10. mál
[20:37]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að stíga hér upp við rétt mál og ræða þetta mikilvæga mál og einmitt nýta tækifærið til að þakka Viðreisn fyrir að leggja það fram á réttum stað. Eins skoplegt og þetta frumhlaup var hjá mér áðan þá er málefnið sem um ræðir alls ekki skoplegt og raunar grafalvarlegt.

Það sem mér finnst mikilvægt við málið er að loks sendum við skýr skilaboð um að samþykki skipti öllu máli þegar kemur að samskiptum á milli fólks. Með því að senda þessi skilaboð erum við líka að senda skilaboð til þeirra þolenda sem upplifa það sem svo að þeir hafi ekki sagt nógu skýrt nei, þeir hafi ekki barist nógu hart á móti, þær eða þau hafi ekki slasast nógu mikið, eða orðið fyrir nógu miklum átökum til þess að réttlæta að kalla það sem þau urðu fyrir kynferðisbrot, nauðgun eða annað af þeim toga.

Mér finnst það gríðarlega mikilvægt skref vegna þess að eins og við vitum öll fylgja því miklar sjálfsásakanir að lenda í kynferðisofbeldi og mikil spurn bæði frá samfélaginu, þótt það sé að lagast, en líka frá einstaklingnum sjálfum um hvað viðkomandi hefði getað gert til að koma í veg fyrir ofbeldið sem þeir urðu fyrir. Með þessu finnst mér við vera að leggja þær línur að báðir aðilar beri ábyrgð á því að tryggja að samþykki liggi fyrir þeim athöfnum sem aðhafa skal. Það ætti svo sem að eiga við um öll samskipti, finnst mér.

Með þessu erum við a.m.k. sem löggjafi að segja að þetta skipti öllu máli. Hafi maður ekki veitt samþykki þótt maður hafi ekki sagt hátt og snjallt nei eða barist á móti, ef samþykki var ekki til staðar er um kynferðisbrot að ræða. Mér finnst það mjög mikilvæg skilaboð, sérstaklega í ljósi þess hvernig fórnarlömb kynferðisofbeldis bregðast oft við með því að frjósa jafnvel í talsvert mörgum tilfellum, um 40% tilfella ef ég man rétt. Þá er kannski ekki við því að búast að hægt sé að veita samþykki eða hafna því þótt augljóst sé að það liggi ekki fyrir.

Mér þykir mjög vænt um að málið er komið fram. Ég held að það eigi eftir að skipta okkur verulegu máli. Mig langar kannski í lokin að rifja upp það sem við heyrðum frá fjölmörgum gestum okkar sem hafa haft mikið með þessi mál að gera, hafa stutt við bakið á þolendum kynferðisbrota og hafa sinnt þeim á einn eða annan hátt, sinnt þörfum þolenda, að þetta muni auðvelda þeim gönguna í að kæra, að hafa þetta svona skýrt í lögunum að samþykki þurfi að liggja fyrir. Það muni líka auðvelda þeim bata hafi einstaklingar orðið fyrir slíku ofbeldi, að það sé skýrt í lögunum að samþykki þurfi að liggja fyrir.

Ég vildi bara segja að ég er mjög ánægð með að málið er komið alla leiðina hingað. Ég vona að við getum greitt því leið í gegnum þingið vegna þess að mér finnst það mjög mikilvægt. Ég þakka enn og aftur flutningsmanni fyrir að leggja málið fram og einnig öllum nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd sem hafa unnið málið með mér og öðrum nefndarmönnum af mjög góðum hug, finnst mér.