148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst svolítið sérkennilegt að menn tala hér ítrekað um að umsagnir séu gagnlegar, þær séu vandaðar og það sé margt í þeim að finna o.s.frv., en síðan ákveður meiri hluti fjárlaganefndar að hunsa allar ábendingar í þessum gagnlegu og vönduðu umsögnum. Af hverju er það? Ég hef spurt formann fjárlaganefndar áður að því, en ég fékk engin svör. Fyrst þetta voru svona gagnlegar umsagnir, af hverju fórum við ekki eftir þeim?

Varðandi gengið þá hefur hv. þingmaður eitthvað misskilið það. Sterkt gengi er ekkert endilega vandamál. Veikt gengi er ekkert endilega vandamál, jú, fyrir suma, það fer eftir því hvar maður er í hagkerfinu. Vandamálið er sveiflurnar. Sveiflurnar eru vandamál. Eina stundina er gengið of sterkt, aðra stundina of veikt. Það er það sem Samtök iðnaðarins benda á og við í Samfylkingunni höfum lengi bent á, að það er gengi krónunnar, það er krónan sem er svo stór hluti af því að lífskjör okkar eru ekki betri en raun ber vitni. Það eru ekki launahækkanir, eins og sumir hv. þingmenn hafa bent á og varað við því að við getum ekki hækkað launin, við þurfum að sýna aðhald hvað það varðar. Við skulum frekar taka umræðuna um hvaða áhrif krónan hefur á buddu almennings í þessu landi. En það virðist vera umræða sem nokkrir þingmenn, sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokksins, eru hræddir við að fara í.