148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[21:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi gengismálin. Það er misskilningur að halda að það sé rosalegt hagræði í sveiflum krónunnar. Gengisfellingar eru engin töfralausn á vanda sem blasir við íslensku hagkerfi. Það er alltaf einhver sem borgar brúsann fyrir gengisfellingar, það er almenningur. Það er saga sem íslensk heimili og fyrirtæki þekkja ansi vel. Gengisfellingar eru ekki ókeypis töfralausn, langt því frá. Þess vegna eigum við að hætta að líta á það sem einhvern kost við krónuna að hægt sé að fella gengið og þá bjargist útflutningsgreinarnar. En á meðan fer verðbólgan upp og verðtryggð lán sömuleiðis.

Varðandi skattinn. Við viljum hafa hér norrænt velferðarríki og -kerfi. Það kostar peninga. Ég sem stjórnmálamaður er alveg ófeiminn við að segja að við þurfum að hækka skatta ef við ætlum að setja meiri peninga í spítala og skóla. Suma skatta má alveg endurskoða, eins og tryggingagjaldið, ég er ekki að boða allsherjarhækkun á öllum sköttum. Mér finnst tryggingagjaldið einmitt vera sá skattur sem koma mætti til lækkunar, kannski með það í huga að hann nái frekar til minni og meðalstórra fyrirtækja. Hægt væri að hugsa sér eitthvert þrep hvað það varðar. Svoleiðis útfærslum erum við algjörlega opin fyrir. En hafa ber í huga að hlutföll opinberra útgjalda af landsframleiðslu eru lægst á Íslandi af öllum Norðurlöndunum þannig að það er ekki rétt að kalla Ísland alltaf háskattaríki þegar við berum okkur saman við Norðurlöndin.