148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór yfir ákveðna sögu, t.d. fyrir hrun og hvernig efnahagsstefnan var þá og í hvað hún leiddi okkur og hvernig við erum búin að flakka fram og til baka í þessum hagstjórnaratriðum að undanförnu. Í fjármálastefnunni er einmitt lögð áhersla á það að viðhalda stöðugleika, það er nokkurn veginn þannig orðað í fjármálastefnunni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hann fór út í þessa söguskýringu: Höfum við einhvern tímann verið með stöðugleika? Eins og ég sé það er Hagstofan núna að spá stöðugleika í lok tímabilsins þar sem hallatalan á hagvextinum er nokkurn veginn núll, hún er ekki á leiðinni niður, hún er ekki á leiðinni upp, hún er ekki að fara fram og til baka. Hún stefnir í áttina að gönguskíðabrekku en ekki svigbrekku eða eitthvað því um líkt.

Ég spyr hv. þingmann: Höfum við einhvern tímann í alvörunni upplifað efnahagslegan stöðugleika á Íslandi?