150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er breytingartillaga frá formanni fjárlaganefndar og formanni efnahags- og viðskiptanefndar sem er lögð til við málið sem ákvæði til bráðabirgða til að tryggja skatt- og skerðingarleysi viðbótargreiðslu desemberuppbótar til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, 10.000 kr. í viðbót til þeirra sem rétt eiga á desemberuppbót á árinu 2019. Kallast þessi tillaga á við tillögu meiri hluta fjárlaganefndar í frumvarpi til fjáraukalaga.

Tillagan hljóðar svo, hæstv. forseti:

„1. Á eftir 15. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar sem eiga rétt á desemberuppbót á árinu 2019, samanber 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2019, nr. 1199/2018, skulu til viðbótar við hana eiga rétt á eingreiðslu að fjárhæð 10.000 kr. Eingreiðsla þessi skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna. Tryggingastofnun ríkisins annast framkvæmd þessa ákvæðis.

2. Á eftir 1. mgr. 41. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir 1. mgr. öðlast 16. gr. þegar gildi.“

Þessi tillaga þarf samþykki til að 10.000 kr. tillaga um viðbót í frumvarpi til fjáraukalaga komi til greiðslu skatt- og skerðingarlaust.