152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

fiskveiðistjórn.

386. mál
[11:20]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka ráðherranum fyrir að þetta mál komi inn í þingið. Við vorum með það í atvinnuveganefnd í fyrra og hér er afar mikilvægt mál á ferðinni. Auðvitað skiptir mjög miklu máli að Fiskistofa hafi þær heimildir sem gagnast til að fylgjast með brottkasti, ég held að allir séu sammála um það. Mér er kunnugt um að margir útgerðarmenn hafa áhyggjur af því hve brottkast er mikið. Auðvitað hefur í gegnum tíðina alltaf verið einhvers konar brottkast á ónýtum fiski og annað slíkt, það er eðlilegt. En því miður vitum við að það er meira en það.

Ég held að það sé mikilvægt í þessari vinnu og þegar nefndin fer að skoða þetta mál að reyna að gæta eins mikils jafnræðis meðal útgerðarflokka og nokkur kostur er. Margir drónar, sem geta nú bara athafnað sig svona nálægt landi, til eftirlits, eru þá að fylgjast með ákveðnum stærðum af skipum og síðan eru skipin sem eru lengra úti og dýpra. Það þarf þá stærri og öflugri tæki til að fylgjast með þeim og þau eru auðvitað til. Við þekkjum alveg dæmi um að slík skip hafi verið tekin fyrir brottkast, jafnvel með flugvél, og svo hefur Landhelgisgæslan verið að skoða öfluga dróna. Það er auðvitað Landhelgisgæslan sem sér um veiðar á svæðum, hvort menn séu á réttum stað og í flestum skipum, ef ekki öllum, er kominn staðsetningarbúnaður þannig að það er nú bara fylgst með því úr landi orðið hvar menn eru á veiðum. Ég held að þessi mál og svo mörg önnur sem varða sjávarútveginn þurfum við að halda áfram að laga og bæta og gera þau þannig að um þau ríki almennt meiri sátt í samfélaginu. Það þarf að einfalda marga hluti og gera það þannig að það liggi í augum uppi fyrir hinn almenna íbúa og borgara hvernig eigi að fara að hlutunum. Ég veit að þetta eftirlit í höfnum og annað slíkt — ég veit að það er umdeilt að Fiskistofa hafi aðgang að þessum gögnum og svona. Þetta eru hlutir sem nefndin fer í gegnum og ég treysti henni mjög vel í það, hún er vel skipuð, og ég veit að ráðherra er annt um að þessi mál komist í höfn og verði til að bæta starfsaðstöðu Fiskistofu og auðvitað að gefa sjómönnum og útgerðinni það aðhald sem ég held að hún kalli eftir eins og við gerum öll í lífinu. Við viljum fara eftir reglum og við viljum hafa reglur og þær eru til þess að fara eftir þeim.