152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

fiskveiðistjórn.

386. mál
[11:24]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna og mig langar að koma að nokkrum atriðum í lok hennar áður en málið fer til umfjöllunar hjá hv. atvinnuveganefnd. Í fyrsta lagi tek ég eindregið undir það sem hér hefur verið sagt varðandi mikilvægi þess að lagaheimildirnar séu skýrar. Það er afar mikilvægt. Aðeins hefur komið til umræðu í fjölmiðlum upphæð þessara dagsekta sem eru, samkvæmt því sem fram kemur í frumvarpinu, 30.000 kr. fyrir hvern byrjaðan dag. Þessi upphæð er í samræmi við tillögu verkefnisstjórnarinnar og nefndin getur auðvitað skoðað og velt því fyrir sér hvort þessi upphæð hafi nægilegan fælingarmátt. Það er eitthvað sem þarf að velta fyrir sér og er ekki upphæð sem er höggvin í stein af hendi ráðuneytisins heldur er bara partur af þinglegri meðferð málsins.

Ég vil líka árétta það, sem kom fram í framsögu minni, að persónuverndarsjónarmiðin eru auðvitað afar mikilvæg en ekki síður sú meginhugsun, sem kom fram hér í máli þeirra þingmanna sem tóku þátt, að það liggur náttúrlega algerlega fyrir að brottkast er lögbrot og það er óheimilt. Eftirlitið snýst um það að veita þeim sem þarna eru annars vegar viðunandi aðhald til að koma í veg fyrir þessi brot en fyrst og fremst þurfum við auðvitað að koma í veg fyrir þessi brot með samstarfi við þau sem sjóinn sækja því að það á að vera þannig að við umgöngumst sjávarauðlindina af virðingu og án þess að brottkast sé ófrávíkjanlegur hluti af því að sækja sjóinn. Það er afar mikilvægt.

Hér voru líka nefnd sjónarmið sem lúta að drægni drónanna og þá í raun og veru hvaða hluti af flotanum er undir og ég tek undir þau sjónarmið. Það skiptir mjög miklu máli að við getum með öflugri tækni, en ekki síður með markvissu samstarfi við Gæsluna, fylgst með fleirum og líka þeim sem eru fjær landi.

Loks vil ég líka hér í lok umræðunnar nefna það að ég hef nú þegar, og gerði það strax í lok síðasta árs, styrkt Fiskistofu í framþróun og tækni með sérstöku fjármagni úr svigrúmi ráðuneytisins. En ég treysti því í ljósi þeirrar umræðu sem hér er, og ekki síst almennrar pólitískrar samstöðu um þessar áherslur, að þingið taki því vel þegar ég mun fara þess á leit að sækja aukið fjármagn til að fjármagna þetta svo að bragur sé að þannig að við séum að sinna þessum mikilvæga þætti sjávarútvegsins með sóma. — Ég þakka annars fyrir góða umræðu, virðulegi forseti.