152. löggjafarþing — 41. fundur,  24. feb. 2022.

almannatryggingar.

71. mál
[12:26]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir þetta frumvarp, ekki bara vegna þess að ég er miðaldra karlmaður sem einhvern tímann verður 67 ára gamall og þetta fer þá jafnvel að hafa áhrif á mig. En eftir að hafa búið mikið erlendis öðru hverju þá kannast ég alveg við þetta vandamál. Það er nefnilega þannig að þegar maður býr erlendis þá eru í sumum ríkjum öflug og góð kerfi þar sem maður vinnur sér inn lífeyri mjög hratt. Sem dæmi starfaði ég í eitt ár í Svíþjóð og vann mér strax inn lífeyrisréttindi þar, reyndar ekki mjög mikil, ég mun fá við sjötugsaldur 170 kr. sænskar á mánuði. En ég fékk alla vega réttindin. Í Bandaríkjunum hef ég búið um þó nokkurt skeið en fæ ekki réttindi af því að ég hef ekki búið þar nógu lengi til að þau detti inn. Ef við horfum bara á ártöl og hversu lengi viðkomandi hefur búið á þessu aldurstímabili þá gefur það mjög skakka mynd. Það er því mjög mikilvægt að það sé aðeins verið að skerða réttindi á Íslandi ef viðkomandi fær raunverulega eitthvað frá hinu landinu. Ég hef líka búið í löndum eins og Rúanda í Afríku þar sem er ekkert lífeyriskerfi. Ég á engin réttindi fyrir þau tvö ár sem ég bjó þar. Það þarf að hugsa um svona hluti. Að sjálfsögðu var þetta eflaust sett inn í lögin vegna þess að menn vildu ekki að það væri hægt að taka tvisvar sinnum lífeyri á sitt hvorum staðnum. Það sem fólk áttaði sig kannski ekki á þegar það var að skrifa þessi lög er að það fá ekki allir lífeyri, sérstaklega ekki útlendingar, þegar þeir búa erlendis. Ef þú ert Íslendingur og býrð einhvers staðar erlendis þá ertu skilgreindur sem útlendingur og þarft að vinna þér inn enn meiri réttindi, ef þú getur yfir höfuð fengið réttindi. Það er að sjálfsögðu bara réttlæti að horft sé á hvort fólk fær lífeyri frá þessum löndum þegar kemur að því að reikna út hversu mikið þetta á að vera.

Þetta minnti mig svolítið á eitt sem ég rakst á einu sinni á þegar ég flutti á milli landa. Ég hélt að það væri þannig að það skipti máli hvenær ég flytti, hversu marga daga ég hefði búið í landinu, þegar kæmi að hlutum eins og skattafslætti. Ég hélt í minni einfeldni að reglan væri þannig að ef ég flytti 1. júlí ætti ég helminginn af skattafslættinum mínum. Nei, í þessu tilfelli var ákveðið að telja ekki dagana því að þeir gætu komið óhentuglega út, heldur voru skoðaðir tekjurnar á Íslandi, og ég fékk hlutfall skattafsláttarins miðað við tekjurnar. Það er alltaf valið það sem virðist vera hentugast í hvert sinn fyrir ríkið í stað þess að hugsa um það sem er réttlátara að gera. — Fleira vildi ég ekki segja, frú forseti.