153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[15:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrirspurnina. Oft í gegnum tíðina, þegar við horfumst í augu við að það séu biðlistar að myndast, sem er auðvitað birtingarmynd álagspunkta í kerfinu okkar, þá förum við í átak. Það er þannig að biðlistar í heilbrigðiskerfinu hafa lengst í heimsfaraldrinum og það verður að segjast að bið eftir fjölmörgum aðgerðum er orðin mun lengri en æskilegt er á alla mælikvarða. Þess vegna er mjög mikilvægt að við snúum öll bökum saman sem getum veitt þjónustu þegar kemur að öllum þessum aðgerðum og vinnum á biðlistunum og komum þessu í eðlilegt horf eins hratt og hægt er. Við viljum auðvitað alltaf geta tekist á við þá stöðu sem upp kemur jöfnum höndum og tryggt að það myndist ekki biðlistar. Þess vegna hefur það verið forgangsmál að vinna að því með þessum aðilum hvernig megi fara í þetta og þar hefur verið lögð mikil áhersla á víðtæka samvinnu og að nýta alla krafta þeirra sem geta komið að verkefnunum. Það er auðvitað alltaf með það meginmarkmið í huga að tryggja jafnræði og jafnt aðgengi að þjónustunni. Þegar kemur að liðskiptaaðgerðunum þá þarf auðvitað að semja um verð og magn og tryggja gæði. Hér höfum við haft Sjúkrahúsið á Akureyri og á Vesturlandi og á Akranesi og Landspítalann og svo hefur Klíníkin verið að gera aðgerðir. (Forseti hringir.) Við höfum unnið að því með alla við það borð að innleiða gæðaverklag (Forseti hringir.) og gera átak í fjölmörgum aðgerðum, m.a. í liðskiptaaðgerðum, og koma þessu verkefni af stað.