Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

ákvarðanir nr. 138/2022, nr. 249/2022 og nr. 151/2022 um breytingar á IX. viðauka og bókun 37 við EES-samninginn.

434. mál
[17:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Það sem hv. þingmaður kallar sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum — ég veit ekki einu sinni hvaða orð við getum notað um það vegna þess að þau tala alltaf eins og þau séu að gera mjög vel. Þegar við spyrjum þau út í aðgerðir og markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda þá mæta þau bara dálítið keik hér í pontu og tala eins og það sé bara allt í himnalagi og þetta sé metnaðarfyllsta ríkisstjórn sem sögur fari af. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé kannski afleiðing af því að eiga samtalið of mikið í „bunkernum“ og of lítið í samfélaginu. Ef þú ert alltaf að eiga samtal við Sjálfstæðisflokkinn, sem er meira en kyrrstöðuflokkur í loftslagsmálum, er bara mjög mikill afturhaldsflokkur og vill engar almennilegar aðgerðir, þá heldur þú kannski að þú sért að ná alveg frábærum árangri með því að láta prútta þig niður í einhverja bera innleiðingu á því minnsta sem Evrópusambandið gerir kröfu um frekar en að sýna raunverulegan sjálfstæðan metnað Íslands. Það er bara búið að færa miðjuna í samtalinu í „bunkernum“ upp að Sjálfstæðisflokknum. Þá er litið á allt það sem fer eitthvað umfram það sem sigur. En við hin sem erum bara úti í samfélaginu, erum að tala við sérfræðinga, erum að tala við aðgerðasinna, vitum betur, sjáum betur. Síðan er svo makalaust að sjá þessa sömu ráðamenn mæta á alþjóðlegar ráðstefnur — eins og matvælaráðherra á loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi á þessu ári, sem sagði að ríki heims þyrftu að hlusta á vísindin og auka metnaðinn á sama tíma og ríkisstjórn Íslands er ekki að gera það. Ríkisstjórn Íslands hefur þráskallast við og neitað að uppfæra markmið sín um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda en síðan mæta þau á ráðstefnur út um hvippinn og hvappinn og monta sig af því að ætla að banna olíuleit, (Forseti hringir.) sem þau gátu ekki samþykkt hér í sal fyrir einu og hálfu ári. Það skilaði sér síðan í samstarfsyfirlýsingunni og var á þingmálaskrá og átti að koma fram í september (Forseti hringir.) síðastliðnum. Nú er desember og ekkert frumvarp.