Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[19:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir andsvarið og þakka fyrir þessa spurningu. Það er alltaf þannig að þegar verið er að taka hlutafélög eða félög til slita þá er farið með þau fyrir héraðsdóm. Héraðsdómur skipar skiptastjóra yfir þessu félagi. En ég ætla aðeins að hnykkja á einu sem stendur í frumvarpinu:

„Í gegnum árin hefur verið nokkuð um að félög sinni ekki skyldum sínum um skil ársreikninga eða samstæðureikninga til opinberrar birtingar þrátt fyrir álagningu stjórnvaldssekta. Þar sem krafa um skipti sendist héraðsdómi og héraðsdómari úrskurðar um hvort orðið verður við kröfunni þykir ekki nauðsynlegt að ákvörðun ársreikningaskrár sæti einnig stjórnsýslukæru til æðra stjórnvalds. Í því sambandi er vert að hafa í huga að þegar ársreikningi hefur ekki verið skilað er enginn vafi til staðar sem kallar á endurskoðun innan stjórnsýslunnar.“

Það sem er verið að segja er að það er nóg að héraðsdómur ákvarði um að þetta tiltekna félag skuli tekið til slitaskipta og þar með þarf ekki frekari meðferð innan stjórnsýslunnar. Þetta er ákveðin hagræðing og ákveðin einföldun á kerfinu, hvernig við höfum verið með það og hvernig við sjáum það fyrir okkur.