Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

hlutafélög o.fl.

227. mál
[19:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að svara seinni spurningunni. Það eru ákveðin tímamörk. Eins og staðan er núna þá er það þannig að ef þú skilar ekki ársreikningi færðu 600.000 kr. sekt. Það er því ákveðinn hvati nú þegar fyrir félög sem eru virk að skila inn ársreikningi innan settra tímamarka. Ef það er ekki gert þá er, eins og stendur í greinargerðinni með frumvarpinu, krafist skipta á búi félags sem ekki hefur skilað ársreikningi að liðnum sex mánuðum frá því frestur til skilanna rann út.

Hvað varðar fyrri spurninguna um hversu margir aðilar þetta eru, þá er gert ráð fyrir að breytingin sé til hagsbóta fyrir þau félög sem hún tekur til en ekki er um marga aðila að ræða, stendur í greinargerðinni. Við erum ekki að tala um þúsundir félaga sem verða fyrir áhrifum af þessu. Ég held fyrst og fremst að þetta séu félög sem eru ekki virk, hafa verið stofnuð utan um einhvers konar nýsköpunarstarfsemi sem náði ekki flugi og eru jafnvel með 600.000 kr. sekt á bakinu eða jafnvel fleiri vegna margra ára trassaskapar við að skila ársreikningum og þess vegna held ég að það sé bara til einföldunar fyrir stjórnsýsluna í heild, fyrir ríkisskattstjóra og í raun fyrir alla að þessi breyting fari í gegn. Það skiptir máli að við séum alltaf að reyna að einfalda stjórnsýsluna og við erum alltaf að tala um það í þessum sal. Ég held að frumvarpið sé til bóta í öllu þessu kerfi og það er verið að kalla eftir þessum breytingum úr þessari grein.