Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

staðfesting rammasamnings um fiskveiðar milli Íslands og Færeyja,.

528. mál
[21:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við erum að mæla fyrir hér er að það komi rammasamningur í stað þessara árlegu bréfaskiptasamninga sem hafa tíðkast um langt skeið. Að því leytinu til erum við að breyta verulega til framtíðar hvernig við munum loka lotunni með Færeyingum. Ég held að það sé mikið framfaramál og til hagræðisauka fyrir báða aðila.

Varðandi Færeyinga þá held ég að það sé nú of mikið sagt að Færeyingar standi ekki með Úkraínumönnum en það segir sína sögu með hvaða hætti við Íslendingar höfum hagað okkar ákvarðanatöku og hvað hún hefur falið í sér gagnvart Rússlandi, eins og hér er verið að gera að umtalsefni. Það er alltaf álitamál hvort að við eigum að láta mál eins og þetta bíða eða líða fyrir það að við séum ekki í einu og öllu sammála því með hvaða hætti Færeyingar haga sinni pólitík hvað varðar samskipti við rússnesk fiskiskip. Það þarf að skoða það í aðeins víðara samhengi ef menn ætla að reyna að komast að niðurstöðu um það hver afstaða Færeyinga er í tilviki stríðsins í Úkraínu.