Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:55]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Það er alveg ljóst að í því frumvarpi sem varð að lögum árið 2018 var miðað við að í lok árs 2022 ætti allt að 172 samningum að vera lokið. En það gerði að sjálfsögðu ráð fyrir ákveðnum kostnaði við þá samninga. Sá kostnaður reyndist vera mun hærri og það er ástæðan fyrir því að við höfum ekki náð þessum samningum.

Hér er ég að koma með frumvarp til að klára málið og setja fram þá áætlun sem ég man að hv. þingmaður spurði mig eftir fyrir kannski ári síðan: Hvar er planið, hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra? spurði hann. Hér er planið, hv. þingmaður. Við ætlum að komast upp í allt að 145 samninga á næsta ári miðað við þær forsendur sem gefnar eru í frumvarpinu, að meðalkostnaðurinn verði með ákveðnum hætti, og 172 samninga á árinu 2024. Ég held að hv. þingmaður ætti að fagna því með okkur að við séum að stíga þessi skref hérna til að geta gert enn þá betur við fatlað fólk á Íslandi. (Gripið fram í.)