Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 41. fundur,  5. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[23:34]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð rík áhersla á að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með mismikla starfsgetu. Er þar sérstaklega horft til þess að bæta afkomu og möguleika til virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á eigin forsendum.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar sem lúta annars vegar að sérstöku frítekjumarki örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar og hins vegar skerðingarhlutfalli tekna við útreikning örorku- og endurhæfingarlífeyris.

Samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar búa örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar við 300.000 kr. frítekjumark á ári vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Gildir hið sama um útreikning heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð, en útreikningur hennar fylgir sömu reglum og þeim sem gilda um tekjutrygginguna. Þetta frítekjumark er þó í raun mun hærra því með ákvæði til bráðabirgða sem tók gildi 1. júlí 2008 var frítekjumarkið hækkað í 1.200.000 kr. á ári og síðan aftur 1. janúar 2009 um 9,6% og fór þá í 1.315.200 kr. á ári sem samsvarar 109.600 kr. á mánuði. Hefur bráðabirgðaákvæðið verið framlengt árlega og fjárhæð frítekjumarksins því haldist óbreytt frá árinu 2009.

Í frumvarpi því sem við ræðum nú er lögð til veruleg hækkun frítekjumarksins og að það verði 2.400.000 kr. á ári sem samsvarar 200.000 kr. á mánuði. Með því er þannig lögð áhersla á að styðja örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega áfram til atvinnuþátttöku þannig að þeir geti haft atvinnutekjur upp að hærra marki en nú gildir án þess að það hafi áhrif til lækkunar á tekjutryggingu eða heimilisuppbót. Þetta er því jákvætt skref til að draga úr tekjutengingum.

Markmiðið með þessu er að stuðla að því að einstaklingar sem metnir hafa verið til örorku eða misst hafa hluta starfsgetu sinnar geti aflað sér hærri tekna með atvinnu áður en tekjurnar komi til lækkunar á greiðslum til örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþega. Hér er því um að ræða mikilvægt skref til að ryðja úr vegi hindrunum til atvinnuþátttöku einstaklinga sem misst hafa starfsgetuna að hluta og er talið að megi stuðla að aukinni atvinnuþátttöku og virkni þessara einstaklinga og þar með auka möguleika þeirra til að bæta kjör sín.

Ég vil í þessu sambandi minna á að aldraðir búa við hærra frítekjumark vegna atvinnutekna en örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar en sérstakt 1.200.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var innleitt 1. janúar 2018 og hækkaði í 2.400.000 kr. 1. janúar 2022. Reynslan af því er góð og virðist atvinnuþátttaka þeirra sem fá greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun hafa aukist á þessu ári. Frítekjumark vegna atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega hefur aftur á móti ekki hækkað frá árinu 2009 eins og ég nefndi hér áðan og því ekki vanþörf á að hækka það núna.

Virðulegi forseti. Auk hækkunar frítekjumarks vegna atvinnutekna er í frumvarpi þessu einnig gert ráð fyrir að skerðingarhlutfall tekna við útreikning örorku- og endurhæfingarlífeyris, aldurstengdrar örorkuuppbótar og örorkustyrks lækki. Samkvæmt gildandi lögum skal skerða örorkulífeyri ef tekjur örorkulífeyrisþega eru hærri en 2.575.220 kr. á ári. Ef tekjur eru umfram frítekjumarkið skal skerða lífeyrinn um 11% þeirra tekna uns hann fellur niður. Sömu reglur gilda um örorkustyrk og aldurstengda örorkuuppbót sem og endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Er lagt til að skerðingarhlutfallið lækki úr 11% í 9%. Er sú breyting til hagsbóta fyrir greiðsluþega auk þess sem hún er nauðsynleg til að koma í veg fyrir að hækkun frítekjumarksins leiði til þess að svokallað fall á krónunni endurvekist, en það lýsir sér þannig að hækkun tekna greiðsluþega um eina krónu getur leitt til þess að hann missi verulegar fjárhæðir greiðslna en það er einn af þeim þáttum sem letur fólk með mismikla starfsgetu til þátttöku á vinnumarkaði og tekist var á við um síðustu áramót.

Verði frumvarpið að lögum mun það auka hvata til atvinnuþátttöku þeirra örorku- eða endurhæfingarlífeyrisþega sem hafa getu og vilja til að taka þátt á vinnumarkaði. Það er mat flestra að slíka hvata skorti í gildandi örorkukerfi, m.a. vegna samspils skatta, bóta og annarra tekna lífeyrisþega. Þessu vil ég breyta enda tel ég óumdeilt að aukin atvinnuþátttaka fólks stuðli að aukinni virkni og bæti bæði félagslega og fjárhagslega stöðu þess. Það frumvarp sem ég mæli fyrir í dag er skref í þá átt og er því skref í átt að nýju greiðslukerfi vegna starfsgetumissis með innbyggðum hvötum til aukinnar atvinnuþátttöku þeirra einstaklinga sem um ræðir. Þetta er því mikilvægt skref á þeirri vegferð að umbylta örorkulífeyriskerfinu sem nú er unnið að í ráðuneyti mínu, með það að markmiði að bæta lífskjör og afkomu örorkulífeyrisþega.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. velferðarnefndar.