154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

staðan á Reykjalundi.

[15:10]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Og jú, það eru um eitt 1.300 einstaklingar sem njóta endurhæfingar á Reykjalundi á hverju einasta ári þannig að ástandið er í rauninni grafalvarlegt. Ég geri mér grein fyrir því að ríkisvaldið og Sjúkratryggingar hafa verið að greiða fyrir hina eiginlegu umönnun og endurhæfinguna sem slíka en ekki hefur verið gert ráð fyrir neinu hvað lýtur að endurbótum. Þannig að mig langar að velta því upp hvort það hafi komið til álita að ríkið keypti jafnvel húsnæðið þannig að það væri í rauninni á ábyrgð ríkisins að sjá til þess að gerðar yrðu fullnægjandi endurbætur á því og það myndi haldast í þeim rekstri sem er bara lífsnauðsynlegur fyrir samfélagið í heild sinni. Þannig að spurningin er þessi: Kemur það ekki til álita, af því að ég veit að ríkið á og rekur t.d. ýmis hjúkrunarheimili og maður hefur heyrt það á þeim stöðum sem hjúkrunarheimili eru ekki undir verndarvæng ríkisins hvað það varðar, að þau hafi svolítið mikið orðið út undan hvað lýtur að endurbótum. Kemur þetta til greina, hæstv. ráðherra?