154. löggjafarþing — 41. fundur,  4. des. 2023.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[16:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér fyrst og fremst upp til að fagna þessu máli sem ég tel að sé afar mikilvægt. Meginhættan sem steðjar að íslenskri tungu tel ég ekki endilega vera þá að hér séu margir útlendingar sem tali útlensku heldur þá að hér séu margir Íslendingar sem tali útlensku, þ.e. að Íslendingar sjái ekki ástæðu til að nota sjálfir þetta tungumál sitt og nota það ekki í samskiptum við aðkomufólk, nota þá íslenskuna dálítið eins og til þess að halda fólki fyrir utan samfélag sitt og nota enskuna til að tala við aðkomufólkið og nota jafnvel ensku í síauknum mæli sín á milli. Ég tel að þarna séu fjölmargar aðgerðir að finna sem geti spornað við þessari þróun og ég vona að þetta mál hljóti brautargengi á Alþingi.

Mig langar samt sem áður að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki áhyggjuefni að ekki fylgi kostnaðarmat þessum góðu tillögum öllum og hvort ekki sé áhyggjuefni að þess sjáist ekki stað í fjárlögum og í öðrum fjármálaáætlunum ríkisstjórnarinnar að það standi til að efla íslenskuna stórkostlega. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún geti fullvissað þingheim og þjóðina um að þessari stórhuga áætlun verði fylgt eftir með myndarlegum hætti hvað varðar fjármálin.