133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

jafnrétti til tónlistarnáms.

289. mál
[15:49]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Aðeins varðandi lagaumhverfi tónlistarskólanna. Gildandi lög um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla eru frá árinu 1985, en samkvæmt 7. gr. þeirra greiða sveitarfélög sem reka tónlistarskóla launakostnað kennara og skólastjóra. Einkareknir tónlistarskólar sem hlotið hafa samþykki sveitarstjórna, í formi þjónustusamnings alla jafna, og sérstakt samþykki ráðuneytisins geta samkvæmt 10. gr. laganna einnig fengið greiddan launakostnað kennara og skólastjóra úr sveitarsjóði. Hlutverk ráðuneytisins er að veita tónlistarskólunum sérstakt samþykki samkvæmt 1. gr. laganna og hafa með höndum faglega umsjón og eftirlit með tónlistarkennslu í landinu.

Í mars 2004 tók til starfa nefnd á vegum ráðuneytisins við endurskoðun laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla. Nefndinni var ætlað að gera tillögur um endurskoðun gildandi laga um tónlistarfræðsluna. Drög að frumvarpi hafa um langt skeið verið til umræðu í nefndinni en ýmis ágreiningsmál milli ríkis og sveitarfélaga eru óleyst sem tengjast beint efni frumvarpsins. Í fyrsta lagi er ágreiningur um fyrirkomulag og kostnaðarskiptingu tónlistarnáms nemenda á framhaldsskólaaldri, eins og hv. þingmaður kom inn á. Fulltrúar sveitarfélaga telja að kennslukostnaður við tónlistarnám nemenda á framhaldsskólaaldri eigi að falla á ríkið. Fulltrúar ríkisins í nefndinni telja að óbreytt fyrirkomulag eigi að gilda um skyldur sveitarfélaga til að greiða kennslukostnað við tónlistarskólann. Fulltrúar tónlistarskólakennara og tónlistarskólastjóra hafa sett fram sín sjónarmið í nefndinni. Það eru því ýmis sjónarmið uppi sem leitt hafa til þess að niðurstaða hefur ekki fengist. En fyrst og síðast tengist þetta líka m.a. kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga, að mínu mati.

Rétt er að taka fram að í upphafi skólaársins 2005–2006 lá fyrir að rekstrarfyrirkomulagi Listdansskóla Íslands yrði breytt á því ári. Þá taldi ég rétt, og tók það upp við sveitarfélögin hvort við ættum þá ekki að klára, ef svo mætti segja, flutning skólans, og þá grunnstigsins, yfir til sveitarfélaga. Eins og við vitum er þessu þannig háttað, lögum samkvæmt, að sveitarfélögin bera ábyrgð á rekstri tónlistarfræðslunnar en ekki ríkisvaldið, en það hefur aftur á móti staðið fyrir greiðslum og stuðningi við t.d. listdansinn.

Ég taldi rétt að fara yfir listmenntun í landinu og gera hana skýrari og skilvirkari þannig að allir vissu að hverju þeir gengju. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að ég tel að grunnstigið og miðstigið eigi að vera á ábyrgð sveitarfélaganna og þá skiptir ekki máli í hvaða listgrein nemendur stunda nám, hvort heldur er um tónlist eða listdans að ræða. Síðan verði framhaldsstigið í viðkomandi listgrein, eins og í tónlistinni, á ábyrgð ríkisins. Þá er ég heldur ekki að tala eingöngu um einingarbært nám heldur allt framhaldsstigið. Ég tel þetta vera eðlilegt fyrirkomulag. Það fór svo að menn náðu ekki saman, hvorki sveitarfélögin né ríkisvaldið voru tilbúin til að klára þessar tillögur og þá á ég við fjárhagslegu hliðina. Þar var verið að ræða um 200 millj. kr. millifærslu frá sveitarfélögunum til ríkisvaldsins hvað þetta varðar, þannig að ríkið tæki á sig meiri kostnað við tónlistarkennsluna en á móti tækju sveitarfélögin, sem er reyndar mun lægri fjárhæð, á sig aðrar listgreinar eins og listdansinn. Ég taldi rétt, með heildarsýnina að leiðarljósi, að fara þessa leið en því miður náðist það ekki í gegn.

Nú er nefndin sem fjallar um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla að reyna að komast til botns í þessu máli og sjá fyrir endann á því, því að það er afar brýnt að sett verði lög um tónlistarskóla. Ég tel það skyldu okkar, bæði sveitarfélaganna og ríkisvaldsins og einnig tónlistarkennaranna, að reyna að komast að ásættanlegri niðurstöðu í málinu fyrst ekki var hægt að sameinast. Það er mikilvægt að þessir aðilar sameinist um þær leiðir sem þeir vilja fara hvað varðar nám á öllum skólastigum, hvort heldur um er ræða grunnskólastig eða framhaldsstig.

Þetta var í rauninni skýrt í mínum huga. En ég vil undirstrika að enda þótt tónlistarfræðslan sé ekki meðal skylduverkefna sveitarfélaga samkvæmt lögunum, er hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett hvort það ákveður að veita fjármuni til þessa málaflokks (Forseti hringir.) og forgangsraða ráðstöfun þeirra í samræmi við stefnu sína í tónlistarfræðslumálum. Að óbreyttum lögum er tónlistarnámið á herðum sveitarfélaganna á meðan aðrar listgreinar eru á herðum ríkisins.