140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

afrekssjóður Íþróttasambands Íslands.

284. mál
[19:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið góð umræða og ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir umræðuna um Ólympíuleikana. Ég er með fyrirspurn sem snýr sérstaklega að afrekssjóðnum. Samningurinn milli ÍSÍ og menntamálaráðuneytisins um framlög til sjóðsins féll úr gildi 31. desember 2008.

Þeir sem þekkja til segja að sjóðurinn sé kominn að þolmörkum, en framlög ríkisins til afrekssjóðs lækkuðu um rúm 20% á milli áranna 2009 og 2011 og er þá ekki tekið tillit til verðlagsbreytinga. Þá hefur kostnaður afreksíþróttafólks við keppnir og æfingar í útlöndum stóraukist vegna óhagstæðrar gengisþróunar. Við vitum að íslenskt afreksfólk eyðir miklum tíma í að afla sjálft fjár, tíma sem mundi annars nýtast til æfinga. Í fjárlögum árið 2012 er gert ráð fyrir 34,7 millj. kr. framlagi í sjóðinn, sem er óbreytt upphæð og tekur ekkert til verðlagsbreytinga.

Við ræddum áðan að það væri mjög mikilvægt, og ég brýni ráðherra í því, að endurnýja samninginn við Íþróttasamband Íslands. Ég verð samt að koma inn á þá miklu umfjöllun sem verið hefur í fjölmiðlum um slæma stöðu íslensks afreksfólks og þá sérstaklega hvað varðar aðstöðumun íslensks afreksfólks og keppinauta þess annars staðar. Ég nefndi danska handknattleiksliðið en einnig má benda á að sænskir afreksíþróttamenn njóta góðra kjara, þeir fá mánaðarlegan styrk nemur atvinnuleysisbótum og jafnframt alls kyns réttindi. Við höfum heyrt í afreksíþróttafólki í fjölmiðlum sem segir að eftir að hafa lagt allt það sem það hefur lagt á sig njóti það í rauninni engra réttinda og sé stórskuldugt. Við höfum horft upp á efnilega afreksíþróttamenn hverfa frá vegna þess að þeir hafa ekki efni á því að stunda íþrótt sína.

Ég vek athygli á greinum eftir Víði Sigurðsson, íþróttablaðamann hjá Morgunblaðinu, þar sem hann fjallar um að það þurfi að stokka spilin upp á nýtt og gefa rétt til þess að við verðum samkeppnishæf á alþjóðavettvangi á þeim íþróttamótum sem við viljum virkilega standa okkur á.

Þetta er brýnt verkefni, virðulegi forseti, og ég veit að vilji hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra stendur til að bæta þessi atriði en ég held að rétt væri að taka þetta mál til umræðu innan ríkisstjórnarinnar allrar. Ég saknaði þess (Forseti hringir.) í umræðunum áðan að einhver minntist á íþróttamálin. Það var minnst á listir og menningu og það er allra góðra gjalda vert, en enginn (Forseti hringir.) minntist á mikilvægi íþrótta.