140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

afrekssjóður Íþróttasambands Íslands.

284. mál
[19:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Íslenska landsliðið er á réttri leið og það er gott. Ég held líka að við séum á réttri leið í þessari umræðu og ég fagna því sérstaklega.

Ég tek það fram að það var jákvætt og gott skref þegar hæstv. menntamálaráðherra lagði fram nýja íþróttastefnu í haust. Hún er allra góðra gjalda verð en það sem vantar inn í hana er hvernig henni verður fylgt eftir. Jú, það er rétt, það komu einhverjir fjármunir á fjárlögum sem eru kannski fyrsta skrefið en ég tel að íþróttahreyfingin öll verði að fá það nákvæmlega niðurskrifað hvað leggja á í íþróttastefnuna til langframa, hvort við ætlum okkur að vera samkeppnishæf við önnur Norðurlönd, hvort við ætlum að ná þeim og segja að við viljum ekki vera eftirbátar þeirra í þessum efnum.

Auðvitað snýst þetta um pólitíska forgangsröðun. Ég held að það hafi verið mjög mikilvægt að ræða þessi mál í ljósi þeirra frétta sem borist hafa frá afreksíþróttafólkinu okkar. Það eru ekki góðar fréttir og ég held að ríkisstjórnin þurfi að gefa út þau skilaboð að þeir sem ætla sér að komast á Ólympíuleikana en hafa ekki tryggt sér þar sæti muni njóta aukins aðhalds og styrkja frá íslenska ríkinu. Árangurinn kemur ekki af sjálfu sér, þetta eru fyrirmyndir okkar, þetta er fólkið sem við viljum sýna út á við. Við búum nú við það að börnin okkar eru að fitna, lýðheilsumálin eru í miklum ólestri. Ég er með fyrirspurn um þau mál sem kemur reyndar til umræðu síðar, en allt helst þetta í hendur. Ég fagna áhuga hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra og spyr að lokum hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér að við ætlum ekki að verða eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða í þessum efnum.