140. löggjafarþing — 42. fundur,  16. jan. 2012.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

285. mál
[19:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda enn fyrir og tek undir orð hans um að þessi sjóður hafi verið alveg feikilega mikilvægur fyrir barnafólk um land allt og nýst til þess að jafna aðstöðumun fólks eftir því hvar það býr. Ég tek líka undir það að þessi sjóður átti sér langan aðdraganda því að um hann hafði talsvert verið rætt og eins hefur talsvert verið rætt um þessi málefni á þinginu í mörg ár, í raun og veru áður en sjóðurinn var stofnaður, þannig að margir glöddust yfir stofnun hans þegar loksins varð af henni. Hann þykir hafa sannað gildi sitt mjög frá því að samningur um hann var gerður árið 2007. Ég nefni það sérstaklega hér að framkvæmd úthlutana hefur þótt takast mjög vel, Íþrótta- og Ólympíusambandið hefur lagt mikla vinnu í að hanna úthlutunarferli sem gerir ráð fyrir því að þeir sem ferðast lengst beri mest úr býtum við úthlutun úr sjóðnum og það hefur gengið eftir þau ár sem úthlutað hefur verið. Alls hefur verið úthlutað 312 millj. kr. eða 312,8 millj. kr. úr sjóðnum frá upphafi.

Hv. þingmaður benti réttilega á að þessi sjóður hefur eins og flest annað verið skorinn niður á niðurskurðartímum þó að segja megi að tekist hafi að tryggja tilvist hans. Það er rétt að 90 millj. kr. áttu að koma inn í sjóðinn 2009. Því framlagi var frestað og við höfum ýmis önnur dæmi um slík mál. Nægir þar að nefna ýmsa rannsóknarsamninga svo sem við Háskóla Íslands, samkomulag við kvikmyndagerðarmenn o.fl., mörgu var slegið á frest í þeim fjárlögum.

Í nýrri íþróttastefnu, sem ég hef áður vísað í er lögð áhersla á eflingu sjóðsins. Stefnunni verður fylgt eftir eins og fjárveitingar leyfa og við munum reyna að vinna að því að efla sjóðinn jafnt og þétt. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég fagna því að sjóðurinn fór upp í tæpar 65 millj. kr., hann var í 52,7 millj. kr. og var lögð til 12 millj. kr. hækkun í fjárlaganefnd, það skiptir máli að ná sjóðnum upp aftur jafnt og þétt.

Hv. þingmaður nefnir samninginn sem í gildi er um sjóðinn. Það er rétt, hann er einn af þeim samningum sem við ræðum um að taka aftur upp. Við höfum viðrað þá hugmynd við Íþróttasambandið að gera rammasamning þar sem allt þetta rúmast inni, þ.e. ferðasjóður, afrekssjóður, rekstrarframlög til ÍSÍ og styrkir til sérsambanda. Það sem skiptir máli er hvernig staðið er að verki og hversu mikið er hægt að skuldbinda ríkissjóð fram í tímann því að gagnrýnt hefur verið að gera samninga um of mikla hækkun fram í tímann, en ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum okkur samt einhverja hugmynd um hvernig við viljum þróa fjárframlög. Hluti af íþróttastefnunni er í öllu falli að efla þennan sjóð jafnt og þétt.