141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Varðandi skattalækkanir og Sjálfstæðisflokkinn, áherslur okkar í þeim efnum, þá er búin til sú grýla að við séum að tala fyrir skattalækkunum til þess að færa ábata af slíku inn í tiltölulega fámennan, þröngan hóp. Það er ekki hugsun okkar, frá því er langur vegur. Við erum að hugsa þetta á svipuðum nótum og kom fram í svari mínu hér áðan og andsvari hv. þm. Lilju Mósesdóttur.

Við erum til dæmis þeirrar skoðunar að betra sé að lækka skattinn á Jón og Gunnu en að setja þau í þá stöðu að þurfa að taka út séreignarsparnaðinn til að greiða af skuldum sínum. Það hljóta að vera leiðir til þess að geta komið hlutunum þannig fyrir.

Varðandi skattalækkanir ætla ég að nefna til dæmis veiðileyfagjaldið sem lagt hefur verið á. (SER: Alveg frábært.) Við erum ekki á móti því að leggja gjald á nýtingu náttúruauðlinda en við teljum þetta gjald einfaldlega allt of hátt. Ég ætla að nefna eitt dæmi (SER: Hvað á það að vera hátt?) sem er ágætt að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson í Norðausturkjördæmi heyri. Traustar stoðir byggðar í Grímsey eru farnar að fúna, m.a. út af álagningu þessa gjalds. (Gripið fram í: Hvað á það að vera hátt?) Er það vilji manna að vinna með þeim hætti að skattleggja einn tiltekinn rekstur atvinnulífs í landinu og fórna þar með þessum þáttum? (Gripið fram í: Hvað á það að vera hátt?) Vitað er að tiltölulega fá fyrirtæki finna ekkert fyrir því að greiða þetta, ekki nokkurn skapaðan hlut meðan vel gengur.

Varðandi dæmi um meiri þjónustu fyrir minna fé. Við leggjum líka áherslu á að staðan sé orðin svo alvarleg að menn hringinn í kringum borðið, ekki bara á Alþingi heldur úti í þjóðfélaginu, verði að setjast niður og koma sér saman um með hvaða hætti verði tekið á málunum. Við erum þeirrar skoðunar að það hljóti að vera færi í ríkisrekstrinum (Forseti hringir.) á að leggja niður tiltekna þætti til að verja (Forseti hringir.) heilbrigðisþjónustu, menntamál o.fl.