143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

frumvarp um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta.

[10:33]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Í vor þegar samþykkt var þingsályktunartillaga um aðgerðir í þágu heimilanna — ég man nú ekki nákvæmlega hvert heitið var á tillögunni en við vitum nú öll um hvaða tillögu ég er að tala — er þar í 7. lið talað um að auðvelda eigi fólki sem þarf að fara í gjaldþrot, að ganga í gegnum þann leiða atburð sem það hlýtur að vera, en er samt því miður sumum nauðsynlegur. Einstaklingar þurfa að borga 250.000 kr. ef þeir æskja þess að fara í gjaldþrot. Frumvarp um það var lagt fram á þinginu í vikunni sem leið, held ég að hafi verið, og ég þori að fullyrða það að ekki stendur á okkur sem erum í minni hluta hér á þingi að frumvarpið verði afgreitt héðan, en það ætti sem sagt að gera það kleift að þetta yrði borgað öðruvísi. Mér skilst að það hafi verið ætlunin að þetta gjald yrði borgað af umboðsmanni skuldara.

Virðulegi forseti. Alla vega er þetta mál ekki á þeim málalista sem náðst hefur samkomulag um að afgreiða hér fyrir jól. Mig langar einfaldlega til að spyrja hv. félagsmálaráðherra af hverju það stafi.