143. löggjafarþing — 42. fundur,  19. des. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[11:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér er verið að gera ákaflega mikilvæga breytingu á fyrirkomulagi skattsins, þ.e. að færa hann inn í 3. tölulið 110. gr. laganna í staðinn fyrir að áður var hann settur í 1. mgr. 112. gr., sem sagt inn í forgangskröfuröðina á tilteknum stað. Ég benti á það strax við 1. umr. málsins að þetta mundi skapa vandræði og reyndar held ég að flestir séu orðnir sammála um að skatturinn þannig útfærður hefði ekki staðist. Hér er til verulegra bóta að gera hann að svonefndri búskröfu sem búið verður refjalaust að greiða á því ári sem skattálagningin fellur til. Þetta er gott dæmi um hversu vandasamt það er að fara út í nýsmíði af þessu tagi og hafa til þess takmarkaðan tíma.

Ég tek undir þau sjónarmið, sem fleiri hafa reifað hér í umræðunni, að ég held að búið sé að reyna eins og kostur er á skömmum tíma að búa eins vel um þetta mál og hægt er. Þetta er ein mikilvægasta breytingin sem gerð er til þess að treysta skattinn í sessi og auka líkurnar á því að hann haldi.