145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Nú liggur fyrir að hæstv. menntamálaráðherra hyggst leggja fram sérstakt frumvarp um að fallið verði frá lækkun útvarpsgjalds. Þetta eru auðvitað gríðarlega mikilvæg skilaboð til Ríkisútvarpsins og ekki síður til þjóðarinnar og allra þeirra sem unna Ríkisútvarpinu og vilja standa vörð um hlutverk og verkefni þess.

Nú flykkjast bæði einstaklingar og aðrir aðilar inn í auglýsingatíma Ríkisútvarpsins til þess að hvetja okkur sem hér erum til þess að taka þessa stuðningsstöðu með Ríkisútvarpinu og standa þá með frumvarpi menntamálaráðherra. Af því tilefni vil ég segja að ég vil hvetja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til dáða í þessu efni. Ég vil hvetja stjórnarflokkana til þess að afgreiða málið í gegnum sína flokka hratt og örugglega til að við getum unnið málið fyrir áramót og vil heita því að það verður mikill og þverpólitískur stuðningur við það. Við í þingflokki VG munum greiða því leið með öllum aðferðum, vegna þess að hér er um að ræða mál sem á að vera hafið yfir pólitískan ágreining milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég vil fagna sérstaklega þessum áformum og hvetja hæstv. ráðherra til dáða í þessu efni og vonast auðvitað til þess að við fáum frumvarpið til úrvinnslu á Alþingi hið allra fyrsta.


Efnisorð er vísa í ræðuna