145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Það runnu á mig tvær grímur þegar ég las orð hæstv. velferðarráðherra um að það þyrfti að ræða takmörkun tjáningarfrelsisins. Já, ég held að það sé alveg rétt hjá hæstv. velferðarráðherra að við þurfum að ræða það hvort eða hvernig við ætlum að takmarka eina af grunnstoðum lýðræðisins sem er forsenda fyrir því að við getum átt í upplýstum samræðum.

Hæstv. velferðarráðherra kom sérstaklega inn á það að það þyrfti að koma böndum á hatursumræðu á internetinu. Eins og við Píratar höfum oft bent á þá er það að stjórna internetinu eins og að smala köttum og það er ekkert sem er að fara að gerast, hvorki fræðilega séð né í raunveruleikanum. Internetið hagar sér þannig að það er ekki hægt að stjórna því eins og maður vill stjórna öðru fólki. Við höfum ítrekað bent á að eina vopnið gegn tjáningu sem við viljum ekki að sé á yfirborðinu er það að ræða meira, að uppræta hatursumræðuna með tjáningu.

Mig langar til að nota tækifærið og benda á átak sem Evrópuráðið hefur haldið úti undanfarin þrjú ár sem heitir No Hate Speech eða engin hatursumræða. Þar er einmitt reynt að sýna fram á það hvar hatursorðræða átti sér stað á internetinu og reynt að sýna fram á það að með því að tala um hlutina, með því að fræðast, þá getum við lært meira og það dregur úr hatursorðræðu eða þeirri tjáningu sem okkur þykir óæskilegt. Ég er alveg sammála því að sum tjáning er frekar ljót, það verður ekki horft fram hjá því. En við þurfum að ræða það, ekki reyna að þagga þetta niður.


Efnisorð er vísa í ræðuna