146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

afnám hafta.

[10:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég get svarað því að ég styð áform um fullkomið afnám hafta. Ég hef lýst því ítrekað yfir að ég vildi að það gerðist sem allra fyrst, en ég hef jafnframt sagt að ég vilji ekki að það verði gert við þær aðstæður að það skapi einhvers konar óróa hér á markaði eða efnahagslegan óstöðugleika. Ég hygg að hv. þingmaður sé mér fyllilega sammála um það.

Hann vísar hér til fundar sem haldinn var að ég hygg í síðustu viku þar sem var óskað eftir fundi við stjórnvöld. Á þeim fundi var ekki gengið frá neinum samningum af neinu tagi, en fulltrúar þessara vogunarsjóða munu hafa útskýrt sitt mál.

Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að við vinnum að því sem allra hraðast að ná fullkomnu afnámi haftanna. Ég er sammála þingmanninum um að það gæti verið mikilvægur áfangi í því að ná jafnvægi í gjaldeyrismálum því að við sjáum að flöktið á krónunni, þar sem hún hefur veikst og styrkst til skiptis á undanförnum vikum, er óviðunandi fyrir bæði innlent atvinnulíf og útflutningsgreinar. Ég hygg því að það væri öllum til farsældar ef það gæti gerst sem allra fyrst.