146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

120. mál
[14:04]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil blanda mér í umræðuna um þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e. um afnám á lágmarksútsvari. Ég vil byrja á því að segja að ég verð að taka undir með þeim þingmönnum, nálega öllum nema hv. flutningsmanni frumvarpsins sem talaði fyrir því, sem hafa talað í þessu máli og hafa fært fram góð rök fyrir því af hverju það eigi ekki að samþykkja það. Án þess að endurtaka beinlínis allt það sem hér hefur verið sagt þá langar mig að bæta inn aðeins nýjum vinkli í þessa umræðu.

Eins og við vitum öll og kemur meira að segja fram í greinargerð með frumvarpinu hafa sveitarfélögin lögbundið hlutverk sem þau þurfa að sinna. Eitt af þeim hlutverkum er þjónusta við fatlað fólk. Þjónusta við fatlað fólk var fyrir nokkrum árum færð frá ríkinu og til sveitarfélaganna. Allir þeir sem hafa eitthvað pínulítið fylgst með umræðunni, hvort sem er hér á Alþingi eða úti í samfélaginu, hafa heyrt og vita að umræðan snýst mjög oft um það að sveitarfélögin eigi erfitt með að sinna þessu lögbundna hlutverki sínu sem þjónusta við fatlað fólk er vegna þess að þau hafa ekki nægilegt fjármagn til að gera það, sér í lagi vegna þess að sem betur fer höfum við á undanförnum árum verið að bæta löggjöfina, bæta réttindi fatlaðs fólks og auka við þá þjónustu sem það á rétt á að fá frá nærsamfélagi sínu. Augljósast til að nefna í því samhengi er auðvitað samþykkt og fullgilding á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem var samþykktur af öllum hér á Alþingi og allir hafa alla vega í orði kveðnu sagst vera sammála og styðja áherslurnar sem þar eru settar en viðurkenna jafnframt að það kostar peninga að hrinda samningnum í framkvæmd, það kostar peninga að veita betri þjónustu. Það er alltaf einhver sem þarf að greiða fyrir þessa þjónustu.

Mig langar að vísa aðeins í rannsókn sem var birt árið 2013 sem fjallar um fatlað fólk sem íbúa sveitarfélaga. Rannsóknin náði til mjög breiðs hóps öryrkja, ekki aðeins þeirra sem núna njóta þjónustu sveitarfélaga heldur allra öryrkja sem eru búsettir í alls konar sveitarfélögum. Þar kom fram að tæplega helmingur þátttakenda í rannsókninni fær ekki neina dagþjónustu eða endurhæfingarþjónustu frá sveitarfélögunum. Það hefur oft verið talað um það að þrátt fyrir að með yfirflutningnum hafi aukist mjög fjöldi þess fólks sem fór að fá þjónustu hjá sveitarfélögum frá því sem var meðan málaflokkurinn var á höndum ríkisins, sé enn þá fullt af fötluðu fólki og öryrkjum sem fái ekki neina þjónustu en ætti hugsanlega rétt á henni. Í rauninni erum við með þannig ástand að við erum með kerfi sem er vanfjármagnað, en það er enn þá fullt af fólki þarna úti sem ætti jafnvel rétt á þjónustu. Kostnaðurinn við að veita þjónustuna er líklega hærri en það sem við vitum um núna.

Hvernig tengist þetta allt saman þessu frumvarpi sem við erum að ræða í dag? Það gerir það nákvæmlega vegna þess að líkt og hér hefur verið farið svo ágætlega yfir þá snýst þetta frumvarp um að sum sveitarfélög geti orðið lágskattaparadísir þar sem sumir íbúar þessa lands greiða ekki inn í samneysluna, sem m.a. skólakerfið og málefni fatlaðs fólks sem ég hef verið að ræða hér um falla undir. Í rauninni er með þessu frumvarpi, yrði það samþykkt sem ég ætla rétt að vona að verði ekki, verið að búa þannig um hnútana að sumir geta komist hjá því að greiða fyrir þjónustu og byrðarnar færast þá yfir á hina sem greiða sitt útsvar í öðrum sveitarfélögum.

Það kemur líka fram í þeirri rannsókn sem ég vitnaði í áðan um fatlað fólk sem íbúa sveitarfélaga að sú þjónusta sem fatlað fólk getur fengið í sveitarfélögum hefur eðli málsins samkvæmt áhrif á það hvar fatlað fólk ekki bara kýs að búa heldur í rauninni verður að búa. Það hefur ekkert annað val en að búa þar sem það fær þjónustuna. Yrði þetta frumvarp samþykkt má kannski segja að ágóðinn yrði tvöfaldur fyrir þá sem ekki þurfa að borga lágmarksútsvarið, þ.e. þeir þurfa ekki að borga til samneyslunnar, þeir þurfa ekki að borga inn í sameiginlegu sjóðina og sveitarfélögin þurfa jafnvel ekki að hafa íbúa hjá sér sem ekki geta borgað til að mynda há fasteignagjöld, því það var nú eitt af því sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason benti á að gæti verið ein af leiðunum sem þessi sveitarfélög gætu notað til þess að taka inn tekjur. Þetta ýtir á allan hátt undir misskiptingu milli sveitarfélaga þar sem ábyrgðarfullu sveitarfélögin verða að taka á sig meiri byrðar til þess að reka það samfélag sem við að öðru leyti reynum að stefna að og viljum stefna að.

Þess vegna fannst mér það sérstaklega furðulegt að hv. flutningsmaður frumvarpsins, Vilhjálmur Árnason, virtist ekkert hafa spáð í það hvort þau sveitarfélög sem myndu fella niður eða ekki innheimta útsvar, ef frumvarpið yrði samþykkt, gætu fengið greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar fannst mér alveg steininn taka úr í þessu máli. Þá er enn og aftur verið að færa byrðarnar til og gera þær enn þá skakkari með því að færa hugsanlega skatttekjur, skatt sem allir borga, til sveitarfélaga sem ekki borga inn í sameiginlega sjóðinn. Ef það væri einhver samkvæmni í máli þeirra sem flytja frumvarpið hefði ég haldið að það ætti að taka það fram að þessi sveitarfélög yrðu vitaskuld undanskilin frá því að geta fengið greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þar með mætti kannski segja að það væri komið eitthvert innbyrðisréttlæti í mál sem mér finnst annars vera mjög óréttlátt.

Þetta var meginvinkillinn sem ég vildi koma með inn í þessa umræðu, þ.e. þá hlið sem snýst um að það er alltaf einhver sem þarf að borga fyrir það að fatlað fólk fái þá þjónustu sem það á rétt á. Ég fæ ekki betur séð en allir séu sammála um að það þurfi að auka enn frekar í. Ég hef ekki einu sinni minnst á NPA í þessu samhengi sem ég heyrði ekki betur, fyrir kosningar, en að frambjóðendur úr öllum flokkum væru sammála um að þeir vildu koma á laggirnar, sem er aftur vitað að myndi leiða til útgjaldaaukningar fyrir sveitarfélögin.

Ég verð að taka undir með þeim sem hafa bent á að þetta mál sé algjör tímaskekkja. Það er verið að taka á algjörlega vitlausum enda af því sem þarf að gera þegar kemur að fjármálum sveitarfélaganna. Það hlýtur að vera miklu nær að hugsa um það hvernig er hægt að auka rekstrarfé allra sveitarfélaga svo þau geti staðið undir lögbundnum hlutverkum sínum og svo hvernig hægt er að deila byrðunum með réttlátum hætti á alla, því það kostar að reka réttlátt samfélag. Það eiga vitaskuld allir að leggja til í það. Ég vil svo ítreka það og segja að vitaskuld eiga þeir efnameiri að leggja sérstaklega meira inn í það púkk en þeir sem efnaminni eru. Þannig tel ég að við getum búið til betra samfélag. Fyrsta skrefið í því er auðvitað að henda þessu frumvarpi og einbeita okkur að því hvernig við getum byggt undir sveitarfélögin en ekki verið að skera undan þeim ef svo má segja.