146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

fríverslunarsamningar.

[15:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu, frummælanda fyrir að hefja hana og hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir svörin. Eins og komið hefur fram í umræðunni eru þetta mjög stórar og viðamiklar spurningar sem hv. þm. Óli Björn Kárason spyr utanríkisráðherra. Ég held að það sé verkefni fyrir utanríkisráðherra nánast út kjörtímabilið að svara þeim. Þær skipta verulega miklu máli, eins og komið hefur fram.

Fríverslunarsamningar hafa skipt okkur mjög miklu máli, við höfum í gegnum tíðina lagt áherslu á tvíhliða samninga í staðinn fyrir að — eins og við höfum séð aðrar þjóðir, þar á meðal Breta, sem tekið hafa ákvörðun um að ganga inn í ríkjabandalög. Við höfum hins vegar átt í nánu samstarfi, og það er gott að heyra að hæstv. utanríkisráðherra hyggst áfram leggja áherslu á samstarf okkar innan EFTA og að EES-samningurinn sé undirstaðan varðandi viðskipti og samstarf við aðrar þjóðir.

En hér til viðbótar eru mjög áhugaverðar spurningar sem ég myndi vilja fá hæstv. ráðherra til fara aðeins betur í gegnum þegar hann kemur í síðari ræðu. Varðandi síðustu spurninguna sem þingmaðurinn spurði um aukna áherslu á fríverslun við þróunarlönd, hvernig sér ráðherrann fyrir sér að það samræmist þeim verkefnum sem hann hefur verið að sinna og auknum fjármunum sem hann hefur fengið til þróunaraðstoðar?

Jafnframt bið ég hann að skerpa betur á því hvaða fríverslunarsamninga hann telur eftirsóknarvert fyrir Ísland að gerðir verði á næstu árum.

Að lokum: Hversu mikilvægt er að við séum stöðugt að endurmeta þá samninga sem við þó höfum gert? Og áhrifin; hafa samningarnir raunverulega skilað því sem við sáum fyrir okkur? Við höfum tekið umræðuna hér að undanförnu um stóra samninga sem sneru að vísu að skattskilum, (Forseti hringir.) markmið þeirra samninga reyndist síðan allt annað en það virtist vera. Ég held að það hljóti að gilda varðandi alla alþjóðlega samninga sem við gerum (Forseti hringir.) að við séum stöðugt tilbúin að taka þá til endurskoðunar.