148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég rakst nýlega á tilvitnun á netinu sem mér finnst frekar skemmtileg og kemur fram í Lögfræðingabröndurum eftir Ólaf Stefánsson frá Kalmanstungu. Tilvitnunin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Eyjólfur ljóstollur og Magnús Stephensen landshöfðingi voru kunnugir og þúuðust. Einu sinni voru þeir og Þorvaldur lögregluþjónn að tala saman á götu. Þorvaldur tekur þá eftir þessu og segir: „Þúar þú landshöfðingjann, Eyjólfur?“ Eyjólfi var lítið um Þorvald og svaraði strax: „Já, ég þúa guð og góða menn, en þéra andskotann og yður.“

Þetta vakti mig til umhugsunar. Þegar við tölum um virðingu Alþingis: Mér finnst stundum kvartað fullmikið um að við þérum ekki nóg, notum ekki rétt orð til að lýsa hneykslan okkar á framferði yfirvalda. En virðingin fyrir Alþingi og virðing Alþingis felst ekki í því að þéra, ekki í því að vera í fínum jakkafötum, þótt það sé ekkert að því að vera í fínum jakkafötum, það er bara frábært. Hún felst ekki í því að halda aftur af hneykslan þegar yfirvöld gera eitthvað fráleitt. Virðingin felst ekki í tiltekinni orðanotkun. Virðingin sem Alþingi fær frá þjóðinni er í meginatriðum sú sama og Alþingi sýnir þjóðinni sjálfri. Þá þurfum við að gæta að hlutverki okkar. Ekki að því hvort við þérum eða séum í þessum jakkafötum eða tökum svona eða hinsegin til orða heldur hvað við séum að gera hérna.

Eitt meginhlutverk Alþingis er að vera aðhald og mótvægi við ríkisvaldið sjálft. Það þýðir að stundum talar maður tæpitungulaust, stundum kallað mannamál. Það er hluti af virðingu Alþingis við almenning, virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um þérun og þúun, þetta snýst um að segja hlutina eins og þeir eru.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að hér hafa menn komið í hrönnum oft og kvartað yfir því að þegar fólk tali tæpitungulaust sé það virðingarleysi við Alþingi. Það er þvert á móti, virðulegi forseti, þvert á móti.